154. löggjafarþing — 109. fundur,  8. maí 2024.

Velferð dýra og eftirlit MAST.

[15:14]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og ég tek undir með henni að þetta er ólíðandi ástand, öll sú umfjöllun sem við sjáum þegar ekki er farið vel með dýr og það ber að gera eitthvað í þeim málum. Ég vil kannski byrja á því að segja og upplýsa það hér að þegar ég kom inn í ráðuneytið þá var eitt af því fyrsta sem ég lagði til að við myndum setja saman hóp þar sem við færum í gegnum dýravelferðarlögin, dýraheilbrigðismálin, af því að mér er það mikið í mun að það verði reynt að lagfæra augljósa galla á kerfinu sem þarna er undir. En af því að hér er Matvælastofnun nefnd þá vil ég um leið segja að það er nú þannig að aðgerðir stofnunarinnar eru ekki alltaf sýnilegar almenningi, oft ekki fyrr en þeim er lokið. En um leið er auðvitað mikilvægt að miðla upplýsingum um þessi mál eins og kostur er án þess að brjóta persónuverndarupplýsingar. En allt á þetta að miða að því að tryggja velferð dýra. Og ég bara tek undir það með hv. þingmanni að mér finnst það vera mikilvægt.

Ég vil líka segja, af því að lögin sem ég vitnaði hér til eru að verða tíu ára gömul, að mér finnst full ástæða til að við stöldrum við og metum lögin og hverju sé ábótavant. Eins og hv. þingmaður nefndi og vitnaði í skýrslu Ríkisendurskoðunar þá er verið að vinna í ráðuneytinu úr ábendingum sem bárust til að reyna að færa hlutina til betri vegar. Skýrslan var send í samráðsgátt stjórnvalda og það kom fullt af ábendingum og við erum að vinna úr þeim núna. En ég fullvissa hv. þingmann um það að ég alla vega er henni sammála um að við verðum að gæta að dýravelferð og ég mun leggja mitt af mörkum til þess að svo megi verða.